Instra:mental & dBridge - Sepia Tones EP - 29.05.2009

Instra:mental & dBridge

Sepia Tones EP

Darkestral

DARKESTRAL004/005

Drum & Bass  / Jungle

 

Fagurfræði og hljóðheimur Darkestral útgáfunnar er mjög í ætt við það sem var að gerast í drum & bass senunni á tíunda áratugi síðastu aldar. Þetta endurspeglast í slagorði Darkestral, “respect the speed limit, 170 bpm”. Á þessum EP taka Instra:Mental og Íslandsvinurinn dBridge þessa hugmyndafræði í tvær ólíkar áttir, “Photograph” og “Translucent” bjóða upp á ljúfar elektróskotnar melódíur en “The Dead Zone” og “Detuned” eru á harðari slóðum, taktfastir slagarar með yfirkeyrðar bassalínur.

 

“Photograph” hefst á fallegum synthalúppum sem afstillast og detta í og úr samhljómi á víxl, fyrir vikið hljóma þær eins og fornir hljóðgervlar sem rétt ná að hósta úr sér melódíunum. Laglínurnar spila hvor með annari og þróast fallega en rólega þegar líður á lagið. “Transclucent” byggir á svipuðum stoðum, léttar og svífandi línur liggja yfir hljómfögrum pöddum og taktföstum trommum. 

 

Hvorugt þessara laga byggir á hinum þekkta, bassatrommu-snerils, two-step fíling sem leiðir til þess að erfitt er að skynja hraða þeirra nákvæmlega og lögin virka mun hægari en þau eru í raun og veru. Þetta ásamt fallegum laglínunum, óljósum vókal sömplum og umhverfishljóðum gerir það að verkum að lögin minna mann nánast jafn mikið á idm spekúlanta eins og Boards of Canada og á drum & bass.  

 

Hinn helmingur skífunnar er þó drum & bass í sinni hreinustu mynd. Í “The Dead Zone” rúlla harkalegir syntar yfir einfaldan en þunglamalegan takt. Urrandi og ógnvænleg bassalína birtist úr engu en annars þróast lagið á mínímalískan hátt þar sem léttir hi hattar, bergmálandi trommur og synta óp spila á móti einföldum taktinum og sprengdum bassanum

 

“Detuned” er á svipuðum slóðum, rúllandi reese bassalína filterast inn og út yfir staccato-legum takti. Hér er ekki verið að finna upp hjólið, það mætti jafnvel halda að  “The Dead Zone” væri remix af tech-step antheminu “Quadrant Six” með Dom & Optical. En Instra:mental og dBridge virðast ekki uppteknir af þeirri þróun sem drum & bass heimurinn hefur tekið á síðustu tíu árum. Opið og vítt hliðrænt sánd þeirra hljómar ferskt þegar það er borið saman við yfir-þjappað sánd dagsins í dag þar sem hærra er alltaf betra, sánd þar sem stundum virðist vera lögð meiri áhersla á stúdíó töfra og tæknilausnir en lagasmíðir og nýjar hugmyndir.

 

Það er líka þar sem nýmæli tríósins liggur, þeir færa sig úr fjötrum nútíma hljóðviðmiða og endurvinna á nostalgískan hátt hálfgleymdar hugmyndir og hugsjónir liðinna stunda. Útkoman er nýtt og ferskt sánd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

 

Karl Tryggvason | kalli@breakbeat.is


Deila með vinum:



0 hefur röflað

    Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!

    Póstlisti


    Breakbeat.is
    Podcast