Raiden kuklar í Voodoo - 08.05.2010

Raiden er kappi sem er búinn að vera nokkuð lengi í bransanum og hefur síðustu ár verið hvað þekktastur fyrir techno-skotið drum & bass, einkum í gegnum plötuútgáfu sína Offkey. Flestir ættu einnig að kannast við slagarann hans Fallin' sem kom út hjá Renegade Hardware árið 2002.

Fyrir stuttu síðan kom hann á laggirnar nýrri plötuútgáfu, Voodoo Music. Þar eru techno-áhrifin lögð til hliðar og áherslan lögð á "tribal" og "organic" hljóð, en að sögn Raiden fæddist hugmyndin að Voodoo Music á ferðalögum hans í Suður-Ameríku. Útgáfufyrirtækið mun fyrst og fremst snúast um tvo tónlistarmenn, Raiden sjálfan og Glasgow-búann Morphy og einnig samstarfsverkefni þeirra við aðra tónlistarmenn.

Fyrsta útgáfan á Voodoo Music er nú þegar komin út, en það var tólftomman "Baptizm Of Fire / Danzon" frá Raiden. Næst er að öllum líkindum "Shackles / Indus Valley" frá Morphy og samkvæmt heimildum er samstarfsverkefni Raiden og Khanage í pípunum. Sagan segir einnig að Raiden og Morphy ætli að gefa út sameiginlega breiðskífu á Voodoo Music.

Unnendur Offkey útgáfunnar ættu einnig ekki að örvænta, því hún mun víst halda áfram að vaxa og dafna og er nýr vefur fyrir Offkey væntanlegur á næstunni.

Hlekkir:
Raiden á MySpace
Voodoo Music á MySpace
Offkey á MySpace


Deila með vinum:



0 hefur röflað

    Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!

    Póstlisti


    Breakbeat.is
    Podcast