Djammrýni: Keltech Launch Party á Madhouse - 16.-17.06.2000 - 21.06.2000

Þeir aðdáendur drum&bass-tónlistar sem lögðu leið sína á underground-klúbbinn Madhouse á Akureyri nú um helgina voru svo sannarlega ekki sviknir að kvöldi þjóðhátíðardags 17.júní. Klúbburinn er svo sannarlega neðanjarðarklúbbur því eftir að þú gengur inn um dyrnar tekur við stigi og svo annar stigi og loks nokkur þrep enn neðar! Og því neðar sem dró því dimmari, hrárri, heitari og sveittari varð ásýnd og andrúmsloft staðarins. Ég heyrði þær raddir að djammið hafi byrjað kl. hálf 2 og staðið yfir í 6 klukkutíma, eða til kl.7:20 þegar Addi lauk kvöldinu.


Þeir sem sáu um að halda kvöldinu gangandi voru þeir Eiður, Kristinn, Héðinn og Addi. Þegar ég kom um 2-leytið stóð Eiður við spilarana og verð ég að segja að þótt skiptingarnar hafi verið misjafnar hjá honum var það hann sem spilaði hvað flottustu tónlistina, að mínu mati, þétt og kröftugt hard-step.


Héðinn og Kristinn voru í góðum gír þetta kvöldið og vissu nákvæmlega hvað átti að matreiða ofan í gesti staðarins þannig að sem flestir héldu til á gólfinu. Það ætti þó ekki að koma á óvart að Addi skyldi bókstaflega eiga kvöldið enda eldri og reyndari en hinir ungu en efnilegu plötusnúðar. Addi var algjörlega í essinu sínu þessa nótt og er þetta að mínu mati með betri mómentum Adda í seinni tíð. Örugglega eiga þessir nýju straumar sem eru að poppa upp á nýrri öld sinn þátt í því. Ég náði því miður ekki að heyra í Önnu en hún tók víst einhverja smásyrpu í lokin, það bíður bara betri tíma.


Þetta kvöld mátti vel heyra að það er ekkert nema bjart framundan í drum&bass-geiranum. Strákarnir reyttu af sér nýtt efni sem fór afskaplega vel í mig og aðra uppstemmda gesti. Engin spurning er hvaða lög eru heitust um þessar mundir. Á föstudagskvöldið var það "Hide You" með Kosheen sem stóð upp úr en á laugardagskvöldinu var það hins vegar lagið "Bloodline" sem ég ætla mér að útnefna sem þemalag laugardagskvöldins. Þetta lag var spilað a.m.k. 4 sinnum á þessum 4 klst. sem ég "staldraði" við á Madhouse. Og það lag virkaði í hvert einasta skipti. Fólk fór næstum því yfir um af kátínu og snappaði gjörsamlega á gólfinu.


Einhverja gamla slagara kannaðist maður jú líka við þarna, svo sem "Sonar" með Trace og æðislegt stykki sem kallast "Soul Beat Runna" með Boymerang frá árinu '97. Það var greinilega margt um fólk í yngri kantinum á svæðinu því ekki voru það margir sem kveiktu á perunni þegar Addi droppaði laginu á fóninn, með öllum sínum væbum, synthahljómum og öðru tilheyrandi. Ég mætti ekki á föstudagskvöldið en ég heyrði það á flestum sem voru bæði kvöldin að laugardagskvöldið hefði án nokkurs efa toppað það fyrra, enda allir í hátíðarskapi að sjálfsögðu. Og það var ekki bara staðurinn heldur öll jörðin sem nötraði og skalf af ánægju þennan daginn. Gestir Madhouse fundu sko ekki fyrir neinum jarðskjálfta því jörðin þurfti að láta í minni pokann fyrir kröftugum tónum sem ullu út úr hátölurunum.


Ég get ekki sleppt því að minnast á sándið á staðnum því þvílíkt og annað eins hljóðkerfi hefur sjaldan verið notað undir þessa hörðu raftónlist. Hver einasta bassanóta fékk að njóta sín án þess að hljóðhimnan færi að minna á að hætta væri á ferðum. Dansgólfið var aldrei tómt því um leið og einhverjir skruppu út til að kæla sig komu nýir aðilar á gólfið í staðinn. Hitinn var gífurlegur þarna niðri en mestu harðhausarnir létu það ekki stoppa sig og létu klæðin falla ásamt því að skvetta vatni yfir hvern annan.


Segjast verður eins og er að ég hef ekki upplifað eins gott og frambærilegt kvöld í afar langan tíma. Þetta minnti mann eilítið á gamla, góða Rósenberg eða jafnvel Tetris, þegar Addi, Reynir og Bjarki voru að feta sig áfram við fónana. Ný kynslóð á sviði drum&bass er að rísa með stæl og ekki að örvænta því næsta tjútt á Akureyri er ekki langt undan, tjekkiði á næstkomandi helgi.

- G.J. -


Deila með vinum:0 hefur röflað

    Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!

    Póstlisti


    Breakbeat.is
    Podcast