Hveitilímið - besti vinur veggspjaldsins
- 12.02.2012
Veggspjöld eru ein helsta auglýsingaleið grasrótarinnar en til þess að þau skili sínu þarf að hengja herlegheitin upp. Til þess þarf í fyrsta lagi veggspjald og vegg en einnig eitthvað til að hengja á vegginn með. Kennaratyggjó er ekki kúl og límband er fyrir amatöra, alvöru fólk notar lím og ódýrast er að notast við hveitilím. Í þágu grasrótarinnar birtir Breakbeat.is hér sína einstöku uppskrift af hveitilími:
Byltingakennt hveitilím Breakbeat.is:
1 hluti hveiti
3 hlutar vatn
salt og pipar eftir smekk
Hveitilím í potti
Vatnið er sett í pott og hveitið sigtað til þess að ná úr því kekkjum. Þá er kveikt undir vatninu og hveitinu hrært rólega út í. Hrærið reglulega í á meðan blandan hitnar, innan skamms tekur blandan að þykkna og þegar farið er að bubbla í pottinum er kominn tími á að slökkva undir.
hveitilím í fötu
Til þess að líma upp veggspjöldin þekur maður flötinn sem líma á upp á með líminu, leggur svo veggspjaldið þar ofan á og penslar loks þunnu lagi af lími ofan á veggspjaldið.