Breakbeat.is

Taktabrot: Veggspjöld, flugumiðar og annað prentefni úr starfi Breakbeat.is 2000-2012

Ný hópfjármögnuð bók, gefin út af Breakbeat.is

Eru til fleiri íslensk hópfjármögnunarverkefni?

Já, þótt hópfjármögnun sé tiltölulega nýtt fyrirbæri hafa nokkrir íslenskir aðilar þegar nýtt það til góðra verka. Þessir ungu herramenn gáfu til að mynda út herramennskukver með hópfjármögnun fyrir jól og tvær íslenskar stúlkur fjármögnuðu gerð heimildarmyndarinnar Start Up Kids með þessu móti. Þykir okkur líklegt að íslenskum hópfjármögnunarverkefnum muni fjölga á næstunni enda sniðug fjármögnunarleið fyrir sniðugt fólk.

Hvernig mun bókin líta út?

Við erum enn að ganga frá próförk bókarinnar en að öllu óbreyttu verður hún 112 blaðsíður. Stærð bókarinnar verður 170x220 mm og verður hún prentuð á 120 gr. pappír.

Hvað er Breakbeat.is?

Breakbeat.is heldur uppi merkjum breakbeat tónlistar og menningar á Íslandi og þá einkum drum & bass, jungle og dubstep tónlist. Starfsemin undir merkjum Breakbeat.is er í raun þríþætt:

 1. Vefsíðan – upplýsingaveita, fréttamiðill, samskiptaleið og netsamfélag

2. Vikulegur útvarpsþáttur á Xinu 97.7

3. Klúbbakvöld í Reykjavík og um landið allt, með íslenskum og erlendum plötusnúðum og tónlistarmönnum.

Nánari upplýsingar á www.breakbeat.is

Get ég treyst Breakbeat.is? Takið þið ekki bara peningin og stingið af til Tortóla eyja?

Eins og við höfum ákveðið að haga þessu verkefni þá verðum við hér að biðja fólk um að treysta okkur. Þó gætum við bent á 12 ára óslitna starfsögu Breakbeat.is (með kennitölu frá síðustu öld, sem er sjaldgæft í þessum bransa) og hvatt fólk til þess að fylgjast með öllu ferlinu hér en við munum reyna að hafa þetta sem gagnsæast. 

Fari eitthvað stórkostlega úrskeiðis og bókin komi ekki út, munum við að sjálfsögðu endurgreiða öllum styrktaraðilum.    

Hvenær kemur bókin út?

Áætlaður útgáfudagur er 24. mars en þá verður einnig slegið upp heljarinar útgáfufagnaði á Faktorý.

Af hverju þarf Breakbeat.is hópfjármögnun?

Maður skyldi kannski ætla að aðstandendur langlífustu klúbbakvölda á Íslandi ættu fúlgur fjár og gætu smellt út eins og einni bók. Sú er þó ekki rauninn, enda er félagið rekið af litlum efnum í frítíma aðstandenda. Tekjulindir félagsins eru fáar og útgjöldin þó nokkur (helvítis kreppan). Þess vegna ákváðum við að fara þessa leið.

Hvað gerist ef ekki safnast nægur peningur?

Ef ekki næst að dekka kostnaðinn við útgáfuna með hópfjáröfluninni munu aðstandur Breakbeat.is greiða það sem á milli stendur ("fermingapeningurinn allur í hönk"). Vonandi mun verkefnið svo borga sig að lokum eftir að bókin fer í hefðbundna smásölu.

Af hverju notist þið ekki við hefbundnari leiðir í þessari hópfjármögnun, eins og t.d. Kickstarter?

Kickstarter er öflugt hópfjáröflunartól og að mörgu leiti gott í verkefni af þessu tagi. Til þess að nota Kickstarter þarf  þó að notast við erlendar greiðsluleiðir og eiga kredit kort. Breakbeat.is ákvað að fara sínar eigin leiðir í þessum málum og notumst við einfaldlega við gömlu góðu millifærsluna.

Hvað er hópfjármögnun?

Hópfjármögnun (e. crowd funding) er fjáröflunarleið sem hefur rutt sér til rúms samhliða útbreiðslu internetsins. Í gegnum hópfjármögnun má geta aðilar ráðist verkefni sem gæti annars reynst þeim erfitt að fjármagna.

Hópfjármögnun virkar þannig að framkvæmdaaðili lýsir verkefninu sem hann hyggst ráða í og útlistar mögulega kostnaði. Í stað þess að slá á lán hjá banka eða öðrum fjármálastofnunum, býður framkvæmdaaðilinn almenningi í að taka þátt í að fjármagna verkefnið. Þannig er verkefnið fjármagnað með mörgum litlum greiðslum sem ekki eru greiddar tilbaka. Fyrir stuðningin er styrktaraðilum oft boðið að njóta afrakstur verkefnisins á einhvern hátt þegar það er full fjármagnað og því hefur verið komið í framkvæmd.