Breakbeat.is

Taktabrot: Veggspjöld, flugumiðar og annað prentefni úr starfi Breakbeat.is 2000-2012

Ný hópfjármögnuð bók, gefin út af Breakbeat.is

Veggspjöldin í borginni - Opið bréf til borgarfulltrúa Reykjavíkur

Eftirfarandi bréf var sent í tölvupósti á borgarfulltrúa Reykjavíkur þann 22. febrúar 2012: 

Veggspjöldin í borginni - Opið bréf til borgarfulltrúa Reykjavíkur

Á vordögum ársins 2008 var skorið upp herör gegn upphengingum veggspjalda í miðbæ Reykjavíkur. Veggir og kassar, sem í áraraðir höfðu borið uppi veggspjöld er auglýstu tónleika og aðra menningarviðburði, voru hreinsaðir svo til samstundis ef einhverjum tónleikahaldaranum eða menningarvitanum datt í hug að hengja þar upp plögg til kynningar á viðburðum sínum. Eftir þessa hreinsun hafa fáir lagt í að hengja upp veggspjöld utandyra í miðbænum utan þeirra örfáu en forlátu veggspjaldastanda við Ingólfstorg sem iðulega eru umsetnir.

Minnir bréfaritara að þetta framtak hafi verið hluti af einhvers konar hreinsunarherferð þáverandi miðborgarstjóra sem fólst m.a. í tiltekt á tómum lóðum og baráttu gegn veggjakroti. Nú er það góðra gjalda vert að halda borginni hreinni og fallegri en undirrituðum og mörgum öðrum finnst þó að veggspjöld ættu að eiga sinn sess í almannarými borgarinnar. Miðborgarstjórinn sjálfur tók meira að segja undir þetta sjónarmið árið 2008 þegar hann lofaði sérstökum veggspjaldarömpum og kallaði slíkt sjálfsagða og nauðsynlega aðstöðu (sjá 24 stundir, 12. júní 2008 http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1221386).

Nokkrum vikum eða mánuðum síðar fóru vissulega upp veggspjaldarampar, ólögulegir steinsteypuklumpar sem staðsettir voru fjarri alfaraleið. Virðast ramparnir síðar hafa verið teknir úr umferð eða í það minnsta færðir enn fjær gangandi vegfarendum miðbæjarins, því bréfaritari hefur ekki rekist á þá nýlega í veggspjaldaupphengingagönguferðum sínum.

Góð aðstaða til upphenginga á veggspjöldum er Reykjavíkurborg mikilvæg. Öflug veggspjaldamenning er oftar en ekki vitnisburður um sterka grassrótarmenningu og líf í menningarkimum og jaðarsvæðum samfélagsins. Í lifandi borg má lesa dagskrá vikunnar af veggjunum. Auglýsingar í dagblöðum og sjónvarpi eru ekki á færi þeirra sem starfa utan meginstraumsins heldur eru veggspjöldin miðill þeirra. Þeir íslensku tónlistarmenn sem hafa náð hvað lengst á alþjóðamarkaði og við sem þjóð erum hvað stoltust af koma einmitt af jaðrinum og úr grasrótinni. Slík list og menning verður ekki til í ríkisstyrktum sölum Hörpunnar né vex hún upp úr markaðsdrifnu poppi sem höfðar til lægsta samnefnara heldur sprettur hún upp úr frjósömum jarðvegi grassrótarinnar.

Þá eru veggspjöldin oftar en ekki listaverk í sjálfu sér, á bakvið þau stendur hæfileikafólk, grafískir hönnuðir og listamenn, sem þróa fag sitt með veggspjaldagerð. Eru útfærslurnar margar hverjar fjölbreyttar og flottar og geta lífgað upp á grámyglulegan hversdagsleikann. Loks telur undirritaður að blómleg veggspjaldamenning hljóti að falla vel undir kjörorðin „Lesið í borg“ sem er einmitt yfirskrift starfsáætlunar Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur árið 2012.

Í þessu ljósi er herör borgarinnar gegn upphengingum veggspjalda í almannarými síðastliðin misseri sorgleg. Leitt er að ekki hafi verið staðið við loforð um að koma upp myndarlegum stöndum fyrir veggspjöld á fjölförnum leiðum miðborgarinnar. Í erlendum borgum má finna ótal dæmi um smekklegar útfærslur á slíku og mætti vafalítið leysa þetta mál svo úr yrði borgarprýði. Undirritaður vill því hvetja borgarfulltrúa til þess athuga vandlega möguleikann á því að koma upp einhvers konar stöndum og stuðla þannig að heilbrigðri miðlun mennigarviðburða.

Að lokum vill undirritaður nýta tækifærið og bjóða borgarfulltrúa og borgarbúa alla velkomna á sýninguna Taktabrot: Veggspjöld, flugumiðar og annað prentefni úr starfi Breakbeat.is sem stendur yfir í Artíma Gallerí, Smiðjustíg 10, dagana 24. febrúar til 4. mars. Þar má sjá brot af þeim fallegu og forvitnilegu veggspjöldum sem prýddu veggi borgarinnar á árum áður. Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á bok.breakbeat.is

Ekkert er fegurra en veggspjöld í Reykjavík.

Með von um góðar undirtektir
-Karl Tryggvason
Tónleikahaldari, plötusnúður og íbúi miðbæjarins