Martyn - Hollendingurinn fljugandi - 08.03.2009

Hin hollenski Martyn ætti að vera notendum Breakbeat.is vel kunnur en hann sótti Ísland heim á Breakbeat.is kvöldi á Iceland Airwaves hátíðinni 2007. Þá hefur hann getið sér gott orð fyrir tónsmíðar sínar og plötusnúðamennsku og er þekktur fyrir að binda sig ekki við neina eina stefnu í þeim málum. Á næstunni er fyrsta breiðskífa Martyn, “Great Lengths” væntanleg á útgáfufyrirtæki hans 3024. Í þessu tilefni slóg blaðamaður Breakbeat.is á þráðinn hjá Martyn og spurði hann spjörunum úr.

 

Breakbeat.is: Til hamingju með nýju breiðskífuna, gætirðu sagt okkur aðeins frá henni?

 

Martyn: Já, hún heitir "Great Lengths", hálft árið 2008 fór í tónsmíðar hjá mér og í það að setja hana saman. Hún mun koma út á útgáfunni minni 3024, geisladiskurinn og mp3 útgáfan mun innihalda 14 lög en vínyl útgáfan 7.

 

Breakbeat.is: Nálgaðistu tónsmíðarnar fyrir breiðskífuna með öðrum hætti en smáskífur og endurhljóðblandanir? Var eitthvert skýrt markmið með breiðskífunni, einhver hljóðheimur eða sýn sem þú vildir mynda eða er þetta samansafn af mismunandi lögum? 

 

Martyn: Ég tók mér nokkura mánaða frí frá plötusnúðagiggum, settist niður og reyndi að gera hugmyndir sem hafði haft í kollinum fyrir breiðskífuna að raunveruleika. Ég samdi mikið af lögum, í kringum 25 held ég, og þegar þau voru komin á það stig að ég áttaði mig á því í hvað stefndi týndi ég til þau lög sem mér fannst passa saman og breiðskífan er útkoman af þeirri vinnu.

 

Á undanförnum mánuðum hef ég svo verið að spila soldið aftur, sum lögin hafa verið prófuð á dansgólfum, það hjálpaði líka til við að móta stefnuna sem skífan tók.

 

 

Breakbeat.is: Þannig að það er ákveðinn tilfinning, hugmynd eða þema sem tengir breiðskífuna saman?

 

Martyn: Já, þótt þetta sé ekki konsept plata þannig lagað er öll tónlistin mín byggð á persónulegri reynslu. Oftast fer sú reynsla og sögurnar á bakvið hana með mér í hljóðverið og þótt hún skili sér ekki út í tónlistina í orðum vona ég að andinn komist til skila. Þannig að breiðskífan er byggð á persónulegri reynslu minni, hlutir sem gerðust í lífi mínu á síðasta ári eða svo. 

 

Breakbeat.is: Breiðskífan inniheldur samstarfsverkefni með dBridge og SpaceApe. Hvernig kom það til? Hefurðu áhuga á að vinna meira með söngvurum og söngkonum í framtíðinni?

 

Martyn: Bæði dBridge og Spaceape eru vinir mínir, þegar ég talaði við þá um breiðskífu komu hugmyndir um samstarfsverkefni upp. Þar sem ég sem mína eigin tónlist með persónulegum þemum bað ég þá um að velja sér viðfangsefni sem stóð þeim nærri. Ég er mjög ánægður með útkomuna, ólík lög en bæði mjög góð að mínu mati. Ég myndi ekki segja að samstarf með söngvurum heilli mig almennt en ég hef gaman að því að vinna með góða vókala, fyrir mér eru þeir bara hljóðfæri sem ég get unnið með í hljóðverinu. Ég hef áður unnið með raddir, t.d í Black Pocket / Steve Spacek endurhljóðblönduninni og ég notast mikið við samplaðar raddir í tónsmíðunum.

 

Breakbeat.is: Ég hef séð það haft eftir þér í viðtölum að þú segist gera “Martyn-Músík”? Hvað einkennir hana?

 

Martyn: Tónlist sem ég skrifa og sem! Reyndar kemur þetta hugtak, “Martyn Músík” frá plötusnúðamennsku minni, ég notaði það til þess að lýsa syrpunum sem ég spilaði þar sem ég fór smám saman að týna til tónlist úr ýmsum stefnum. Þegar fólk spurði mig hvað ég spilaði sagði ég einfaldlega “Martyn Músík”, það er ákveðinn fílingur og ákveðið sánd en ekki endilega tilteknar stefnur eða geirar.

 

Það var ekki fyrr en seinna sem þessi frasi var notaður um mínar eigin tónsmíðar, en það var ekki ætlun mín

 

Breakbeat.is: Það tengir þó vel yfir í næstu spurningu okkar. Þar sem bæði tónsmíðar þínar og plötusnúðasyrpur ná yfir vítt bpm svið og fanga margar stefnur. Hvernig finnst þér áheyrendur og bransinn taka á móti slíku stefnuflakki?

 

Martyn: Það fer allt eftir því hvernig þú tengir hlutina saman. Ég reyni að draga línur á milli laga sem vekja ákveðnar tilfinningar eða hafa tiltekið væb, frekar en að hugsa “núna ætla ég að spila hip hop lag og svo techno slagara”. Maður þarf að skapa ákveðið flæði. En almennt séð held ég að fólk sem hlusti á mig hafi þá tilfinningu að þau hafi heyrt góða tónlist þótt það geti kannski ekki nefnt stefnur og strauma sem mætti flokka hana undir. Það er líka það sem þetta á að snúast um, að fara út, hlusta á góða tónlist og skemmta sér.

 

 

Breakbeat.is: Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir Martyn og 3024 þegar breiðskífan hefur komið út?

 

Martyn: Það verða pottþétt nokkrar 12" á 3024 í ár, tónlist frá sjálfum mér og öðrum. Svo er ég líka að vinna í tónlist fyrir Hyperdub og All City útgáfurnar.

 

Breakbeat.is: Þú býrð um þessar mundir í Bandaríkjunum, er munur á klúbbum, tónlist og senunni almennt frá því að vera í Evrópu?

 

Martyn: Svo sannarlega, raftónlist og raftónlistarheimurinn er mjög lítill í BNA miðað við Evrópu. Hér snýst allt um hip hop eða gítarhljómsveitir, sérstaklega í mainstream geiranum, í sjónvarpi og útvarpi. Fólk er einfaldlega ekki jafn vant raftónlist, þar sem þeir rekast aldrei á hana. Í Evrópu streymir raftónlist út úr hljómtækjum fataverslana, er í sjónvarpsauglýsingum og klúbbum, hún er einfaldlega hluti af menningunni.

 

Breakbeat.is: Hvað finnst þér um raftónlist í dag? Techno / dubstep / drum & bass? Hvaða listamenn og útgáfur eru í uppáhaldi?

 

Martyn: Aha, það er margt spennandi í gangi. 

 

Breakbeat.is: Þar erum við sammála.

 

Martyn: Það sem Hyperdub hefur verið að gefa út undanfarið er frábært, Warp eru að standa sig (Fly Lo, Pivot), All City / Lucky Me crewið í Glasgow, Mike Slott. Berghain sándið, Ben Klock, Marcel Dettman, Shed og Prosumer. DJ Koze, Pepe Braddock og auðvitað 2562. Roska

 

Breakbeat.is: Það hljómar eins og þú gætir haldið þessari upptalningu áfram í dágóða stund?

 

Martyn: Erm, algerlega. Marcus, dBridge, Instra:Mental… Harmonic 313, jæja látum það gott heita í bili.

 

Breakbeat.is: er eitthvað sem þú myndir vilja segja að lokum við íslenska lesendur?

 

Martyn: Ég vona að ég fái bráðum að heimsækja ykkur aftur!!! Ég þarf á sundspretti í Bláa Lóninu að halda!

 

Breakbeat.is: Það kemur eflaust að því, fyrr eða síðar! Takk fyrir viðtalið.

 

Martyn: Takk, sömuleiðis.

 

Hlekkir:

3024

Martyn á Myspace

 

Karl Tryggvason | kalli@breakbeat.is


Deila með vinum:0 hefur röflað

    Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!

    Póstlisti


    Breakbeat.is
    Podcast