Commix – FabricLive 44 (Fabric) - 01.04.2009

Commix

FabricLive 44

(Fabric)

Fabric088 | CD
Drum & Bass

4/5

 

Í gegnum árin hafa ófáir tónlistarmenn gerst liðhlaupar úr röðum drum & bass tónlistarinnar, A Guy Called Gerald, 4Hero og Boymerang koma manni strax til hugar og undanfarið hefur dubstep heimurinn heillað menn á borð við Martyn, Breakage og Kryptic Minds til þess að hægja á tónsmíðum sínum og minnka taktabrotin. Það vakti því óttablandina athygli að sjá íslandsvinina í Commix lýsa yfir langvinnri þreytu og áhugaleysi með bróðurpart drum & bass senunnar ásamt því að tjá ást sína á techno og house í fréttatilkynningunni sem fylgdi FabricLive disk þeirra. Piltarnir skynjuðu örvæntingu aðdáanda sinna og voru fljótir að láta þau boð berast á veraldarvefnum að þrátt fyrir þetta væru þeir síður en svo hættir í drum & bass tónlistinni. Sama á hvaða mið Camebridge tvíeykið leitar á næstu misserum er mixdiskur þeirra, FabricLive 44, minnisvarði um þá góðu hluti sem eru í gangi í drum & bass heiminum árið 2009.

 

Commix piltarnir eru ekki lengi að koma hlutunum í gang heldur leiða þeir áheyrendur beint í grúvið og gefa fljótt sýnishorn af hinum ýmsu sándum, stefnum og geirum sem eru í boði á mixdisk þessum. Orkustigið fer upp og niður, frá dansgólfa tryllum í tilraunakenndari takta, þannig förum við úr heimi ljúfra syntha í tröllvaxinar bassalínur og úr mínímalísku two step grúvi yfir í taumlausa taktaleikfimi.

 

“Life We Live” með Commix sjálfum er fyrsta lag plötunar, léttlyntur slagari sem leiðir fljótt yfir í sorgmæddari tóna frá Rufige Kru og dBridge. Svo taka við harðari taktar frá Alix Perez, Data og Logistics áður en minimalískt grúf “Buried” með Spectrasoul og “Justified” með Commix sjálfum tekur völdin. Mónótónískur söngur Calibre í laginu “Can’t get over You” spilar vel á móti djúpri röddu MC Kemo sem tekur öll völd í “Dangerous” með Lynx & Alix Perez sem rúllar svo aftur vel yfir í elektró skotið remix dBridge af “Belleview”.

 

Dubplate andi drum & bass senunnar, því nýrra – því betra, svífur yfir vötnum á þessari skífu, en þó er mixið kryddað með nokkrum klassíkerum frá tíunda áratugnum. “Common Orgin” með Johnny L fer vel við hliðina “Old School Thing” með Breakage, lag sem ber svo sannarlega nafn með rentu. Hið vantmetna og oftgleymda Photek lag “Yendi” smellpassar líka á milli tveggjra frábærra Instra:mental laga þ.m.t. hið gullfallega “Photograph”

 

Commix hafa hér sett saman safnskífu með mörgum af skemmtilegri listamönnum drum & bass geirans. Mixið er hugvitsamlega sett saman og lagalistinn stillir andstæðum gegn hvor öðrum á skemmtilegan hátt, hið dimma og hið ljósa takast á og hið harða leiðir okkur í hið létta og mjúka. Þetta er skífa sem er, eins klisjukennt og það er að segja, svo sannarlega tónlistarlegt ferðalag.

 

Karl Tryggvason | kalli@breakbeat.is


Deila með vinum:



0 hefur röflað

    Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!

    Póstlisti


    Breakbeat.is
    Podcast