Breakbeat.is hefur frá upphafi unnið með Iceland Airwaves og staðið að árlegum klúbbakvöldum á hátíðinni. Undanfarin ár hafa kappar á borð við Lynx, Mala, Martyn, Doc Scott og High Contrast sótt landið heim undir þessum formerkjum og í ár verður það breski plötusnúðurinn og tónlistarmaðurinn Ramadanman sem leikur á Breakbeat.is kvöldi hátíðarinnar. Fara herlegheitin fram fimmtudaginn 14. október á Apótekinu.
Ramadanman er rísandi stjarna í dubstep heiminum. Ásamt félögum sínum Ben UFO og Pangea á hann og rekur plötuútgáfuna Hessle Audio og einn síns liðs hefur hann gefið út tónlist hjá Soul Jazz, Apple Pips, Tempa, Swamp 81, Critical og Hemlock svo eitthvað sé nefnt. Í plötusnúðasettum sínum spannar Ramadanman vítt svið, fer frá dubstep og funky tónum yfir í grime, hip hop, house og aðra geira sem hleypa lífi í dansgólf um víða veröld. Nánari upplýsingar um Breakbeat.is klúbbakvöld Iceland Airwaves árið 2010 eru væntanlegar á næstunni svo fylgist vel með hér á vefnum.
Iceland Airwaves hátíðin fer í ár fram dagana 13.-17. október og er miðasala á hátíðina hafin á miði.is. Af öðrum spennandi erlendum listamönnum sem spila á hátíðinni þetta árið má nefna Mount Kimbie, Hercules & Love Affair, Moderat og James Blake auk þess sem rjóminn af íslensku tónlistarlífi stígur á stokk.
0 hefur röflað
Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!