Blu Mar Ten - Believe Me (Blu Mar Ten) - 20.07.2009

Blu Mar Ten
Belive Me
Blu Mar Ten UK
BMT 002
drum & bass
4/5

Lundúnar þríeykið Blu Mar Ten hefur verið að undanfarin 14 ár í drömm´en´beis heiminum, stórmerkilegt teymi sem eru þekktir fyrir undurfagran hljóm en þeir félagar hófu ferilinn hjá Good Looking útgáfu LTJ Bukem. Núna nýlega hentu þeir út smáskífu númer tvö af næstu breiðskífu sinni sem er væntanleg í lok þessa árs. ´Believe Me´/ ‘Made of Air´ smáskífan er elektróskotinn syntha sinfónía sem er þess virði að tjékka á í amstri dagsins. Á vínyl útgáfu þessarar plötu þeirra félaga er hægt að finna tvö lög, en það þriðja, ´Overwhelm´ er eingöngu hægt að nálgast á MP3.

‘Believe Me’ byrjar á þungum, compressuðum kicker og fljótandi syntha bakgrunni í stíl við fyrri verk þeirra félaga. Rúllandi bassalínan leggst síðan yfir draumkendan hljóminn, mótaðan af synthum og strengjum sem vekja mann upp til lífsins líkt og hamstur sem fær plastkúlu til að hlaupa um í. Stöku sinnum slægist inn mjúkur kvenmanns vókall sem leiðir lagið. Þetta er eitt af þessum melódísku lögum sem leyfa manni að segja að mjúkt og flöffi geti einning verið hart sem stál á sama tíma. Ekki beint lag sem fær mann til að vilja berja höfðinu upp að vegg og öskra ‘sársauki er góður’ en fær mann til að vilja tjútta og svitna aðeins eftir erfiðan vinnudag.

‘Made of Air’ er ekki þetta týpíska two-step lag. Kaotískur takturinn sem byrjar lagið leiðir mann inní annan synthaheim þar sem minnimalísk framtíðin er slaghamarinn sem neglir niður lagið. Á fyrsta droppi hefst techno sprottin keyrsla sem er mjúk þrátt fyrir ringulreiðina. Jazz-skotinn og einföld bassalína læðist undir gruggugt taktabrask og synthar taka við völdunum. Það er ákveðinn 808 fíllingur í þessu lagi sem fær mann til að vilja tjilla í íþróttagalla og skella um hálsinn á sér einni eldhúsklukku eða svo og horfa á Bladerunner aftur.  Ágætis lag sem vinnst á við spilun og gott merki um það að ekki allir eru að gera það sama og nágranninn er að gera.

‘Overwhelm’ er þriðja lagið á smáskífunni (en fæst eingöngu á MP3 formattinu). Í byrjun stígur flauelsmjúkur synth skalann þar til 808 takturinn tekur við ásamt seiðandi og svölum bassa. Undir bassanum er distortaður fylgihlutur sem gefur honum ákveðinn sjarma sem erfitt er að heillast ekki af. Flottir, líðandi strengir og loftkennt píanó halda rólegu elektró laginu kyrfilega föstu í draumalandinu. Ekki beint það sem maður myndi kalla klúbbatryllir en engu að síður eitthvað sem væri flott í byrjun kvölds til að drekka öl yfir og koma sér í gírinn. Hiklaust lag sem jafnvel harðhausar myndu setja á fóninn heima hjá sér bara vegna þess að það er ‘svalt’.

Axel Tómasson


Deila með vinum:


0 hefur röflað

    Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!

    Póstlisti


    Breakbeat.is
    Podcast