Lynx - 30.10.2008

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fer fram í 10. skipti í miðbæ Reykjavíkur 15.-19. október næstkomandi. Breakbeat.is hefur haldið að minnsta kosti eitt kvöld í samvinnu við hátíðina á hverju ári frá upphafi, og 2008 verður engin undantekning. Sameiginlegt kvöld Breakbeat.is og Iceland Airwaves fer fram á 22 miðvikudaginn 15. október og sérstakur heiðursgestur kvöldsins verður enginn annar en Steven Nobes, betur þekktur sem Lynx. Upphitun verður í höndum þeirra Raychem, Subminimal og Gunna Ewok. Við litum nánar yfir feril Lynx.

Drum & bass heimurinn hafði beðið um hríð eftir músíkölskum fjölbreytileika sem líka höfðar til fjöldans, og Lynx hefur verið biðarinnar virði! Ofurklúbbar Lundúnaborgar bera vitni um það viku eftir viku, því lög á borð við "Disco Dodo", "Global Enemies", "Carnivale", "Skylines" og fleiri hafa verið að gera allt snælduvitlaust undanfarin misseri.

Lynx hefur verið að garfa í tónlist um áraraðir, og fyrstu alvöru sporin steig hann í Airtight-hljóðverinu í Chichester á Suður-Englandi. Þar slitu meðal annars drum & bass kappar á borð við Friction, Mampi Swift, Stakka og Skynet barnsskónum. Hæfileikar Lynx komu þar bersýnilega í ljós og innan skamms var hann orðinn einn af yfirmönnum hljóðversins. Í fyrstu var það techno-skotið drum & bass sem átti hug hans allan en í kjölfarið fór hann að færa sig yfir í “liquid funk” og enn fjölbreytilegri tónsmíðar.

Lynx kynntist svo hæfileikaríka rapparanum Kemo, en hann á rætur sínar að rekja meðal annars til Þýskalands og Hawaii. Fyrsta lagið sem þeir gerðu saman var smellurinn “Global Enemies” sem kom út á útgáfu Marcus Intalex, Soul:R. Goðsögnin Fabio á BBC Radio 1 spáði laginu samstundis miklum frama, sem varð raunin og hreppti það meðal annars toppsætið á árslista Breakbeat.is fyrir árið 2007. Í kjölfarið kom út lagið Carnivale á Soul:R og með því sýndu Lynx og Kemo að þeir voru komnir til að vera. Ofan á allt þetta átti Lynx síðan eitt af söluhærri drum & bass lögum síðari ára, hinn frumlega dansgólfasmell “Disco Dodo” sem kom út á Creative Source, plötuútgáfu fyrrnefnds Fabio.

Árið 2008 hefur einnig reynst Lynx og Kemo farsælt. Þeir gáfu út lagið “Skylines” á Digital Soundboy útgáfunni og unnu svo hörðum höndum að breiðskífunni “The Raw Truth” á milli þess sem þeir hafa komið fram um heiminn þveran og endilegan. “The Raw Truth” er væntanleg innan nokkurra vikna á Soul:R útgáfunni og er beðið með mikill eftirvæntingu.

Lynx @ MySpace
Lynx @ RollDaBeats


Deila með vinum:0 hefur röflað

    Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!

    Póstlisti


    Breakbeat.is
    Podcast